Að lyfta léttum lóðum
Því hefur lengi verið haldið fram að fólk þurfi að lyfta þungum lóðum vilji það stækka vöðvana. Nýleg rannsókn, sem framkvæmd var við McCaster-háskólann í Bretlandi, virðist þó draga þetta í efa.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust nýverið, en þar kemur fram að þeir sem lyfta léttum lóðum geta bætt við sig jafnmiklum vöðvamassa og þeir sem kjósa að lyfta þungum lóðum.
Vísindamenn fylgdu 49 karlmönnum eftir, sem allir höfðu stundað styrktarþjálfun samfleytt í 12 mánuði.
Helmingur þátttakendanna var látinn lyfta þungum lóðum, sem orsökuðu þreytu eftir 10 endurtekningar. Hinn helmingurinn var látinn lyfta lóðum í léttara lagi, sem urðu til þess að þátttakendur þreyttust eftir 25 endurtekningar.
Æfingar stóðu yfir í 12 vikur, en þátttakendur fóru í ræktina fjórum sinnum í viku. Niðurstöðurnar komu heldur betur á óvart, en þær voru sams konar hjá báðum hópum. Vísindamennirnir hafa því sett fram þá tilgátu að það sé í raun þreytan sjálf, en ekki þyngdin á lóðunum, sem veldur auknum vexti vöðva.
Dr. Stuart Phillips, sem fór fyrir rannsókninni, sagði í viðtali við New York Times að mörgum þætti bæði auðveldara og minna yfirþyrmandi að lyfta léttum lóðum. Jafnvel þótt þeir þurfi að framkvæma fleiri endurtekningar til að þreyta vöðvana.
Fengið af mbl.is